Header image  
bækur fyrir börn  
  
 
 
 
 


 

Kvíðaraskanir barna
Eðlilegar áhyggjur.

Áhyggjur eru eðlilegur hluti af daglegu lífi og þroska jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Ótti eða hræðsla er viðbragð við yfirvofandi hættu eða ógn og þarf ekki að hefta daglegar athafnir. Eðlilegar áhyggjur geta stuðlað að því að við tökumst á við nýjar eða erfiðar aðstæður af ábyrgð og öðlumst fyrir vikið aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Eðlilegur ótti hjá ungum börnum getur t.d. snúið að skorti á líkamlegum stuðningi, háværum hljóðum, aðskilnaði frá foreldrum eða framandi dýrum. Þegar börnin eldast fara áhyggjur gjarnan að snúast um eigin frammistöðu, efni í fjölmiðlum, samskipti við jafnaldra, útlitið og jafnvel framtíðina. Víst er að ekkert okkar fer í gegnum lífið án þess að upplifa áhyggjur af þessum toga.

Þegar áhyggjur verða að kvíða.

Þegar áhyggjur hjá börnum verða að viðvarandi ástandi og stafa ekki af raunverulegum ógnun  þá tölum við um kvíða. Áhyggjurnar stuðla þá ekki lengur að bættri frammistöðu eða þroska heldur þvert á móti hindra börnin í daglegu lífi og skerða möguleika þeirra til að takast á við krefjandi verkefni.

Kvíði er algengasta tegund sálrænna efiðleika hjá börnum og er algengari meðal stúlkna en drengja. Einkenni kvíða hafa víðtæk áhrif á lífsgæði barna og  koma fram í líkamlegum viðbrögðum, hugsunum og hegðun. Algeng líkamleg viðbrögð eru höfuðverkur, magaverkur, aukinn hjartsláttur, svimi og jafnvel útbrot. Þrálátar hugsanir geta t.d. falið í sér ótta við að mistakast, hræðslu við að verða að athlægi eða ótta um eigið líf eða annarra nákomna. Breyting á hegðun getur falið í sér minnkaðan áhuga á athöfnum sem áður vöktu gleði, minna þarf til en áður svo barnið fari úr jafnvægi og börn forðast aðstæður sem taldar eru kvíðvænlegar.

Tegundir kvíðaraskana.

Líkt og hjá fullorðnum þá eru til mismunandi tegundir af kvíða sem þó eiga sameiginlegt að fela í sér líkamleg viðbrögð, þrálátar áhyggjutengdar hugsanir og sýnileg áhrif á hegðun. Þessar kvíðaraskanir nefnast aðskilnaðarkvíði, almenn kvíðaröskun, ofsakvíði, sértæk fælni, áráttu- og þráhyggjuröskun og félagsfælni.
Aðskilnaðarkvíði er þekktur hjá yngri börnum og felur í sér ótta við aðskilnað frá foreldrum og/eða öðrum lykilpersónum. Barnið hræðist raunverulega að aðskilnaðurinn verði til frambúðar og er því ekki tilraun til að stjórna umhverfinu. Almenn kvíðaröskun beinist ekki að einhverju einu heldur felur í sér almennar áhyggjur af ýmsum hlutum. Barnið leitar þá mikið eftir huggun og staðfestingu, er órólegt, þreytt og á erfitt með einbeitingu.

Endurtekin og viðvarandi hræðsluköst sem fela í sér sterk líkamleg viðbrögð, óraunveruleikatilfinningu og ótta við að eitthvað hræðilegt sé um það bil að gerast kallast ofsakvíði. Barnið fer eðlilega að óttast hræðsluköstin og þar með aðstæður sem líklegar eru til að kveikja þau (t.d. margmenni). Sértæk fælni felur í sér mikinn og óraunhæfan ótta við ákveðna hluti eða aðstæður sem ekki stafar raunveruleg hætta af. Dæmi um slíkt er ótti við hunda, kóngulær, hæð eða lokað rými.

Áráttu- og þráhyggjuröskun einkennist af tímafrekum athöfnum og hugsunum. Þráhyggja vísar til endurtekinna hugsana, hvata eða ímynda sem ”ryðjast” fyrirvaralaust til meðvitundar. Algengt er að þær feli í sér ótta við smit, ofbeldisfullar hvatir eða kynóra. Árátta vísar til síendurtekins atferlis t.d. að þvo sér um hendur, telja skref eða raða hlutum. Að lokum má nefna félagsfælni sem er algengari meðal eldri barna eða unglinga og einkennist af ótta við félagslegar aðstæður. Barnið eða unglingurinn óttast samanburð, hefur áhyggjur af því að gera mistök og verða að athlægi og forðast því slíkar aðstæður.

Meðferð við kvíða.

Þrátt fyrir að kvíði sé algengasta sálræna röskunin hjá börnum og ungmennum þá eru um leið minnstar líkur á að barninu sé veitt viðunandi aðstoð, í samanburði við aðra erfiðleika. Börn með kvíða geta verið krefjandi í umönnun á heimilinu en einkennin eru ekki alltaf eins sýnileg út á við. Engu að síður er afar mikilvægt að meðhöndla kvíðann vegna þess að kvíði dregur úr lífsgæðum barnsins, skerðir möguleika þess á að þroska færni sína og ómeðhöndlaður kvíði eykur líkur á kvíðatengdum vandamálum í framtíðinni.

Flestum foreldrum er eðlislægt að hugga áhyggjufullt barn sitt, veita því endurtekna fullvissu um að áhyggjurnar séu óþarfar og leggja jafnvel talsvert á sig til að forða barninu frá óttavekjandi aðstæðum. Þessar aðferðir geta hins vegar átt þátt í því að viðhalda kvíðanum og skapað vítahring sem erfitt er að rjúfa. Til eru sannreyndar aðferðir til að hjálpa börnum að sigrast á kvíða og eru foreldrar hvattir til að leita ráða hjá sálfræðingi (t.d. í skóla barnsins eða á stofu) eða hjá lækni telji þeir að barnið sitt sé kvíðið. Bókin Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? er hagnýtt verkfæri sem foreldrar geta nýtt sér í vinnu með barninu heima.

Mikilvægt er að hafa í huga að í sumum tilvikum eru kvíðaeinkenni barna eðlileg afleiðing af umhverfi þeirra og ber þá einungis, eða samhliða vinnu með barninu, að breyta umhverfinu eða færa barnið úr aðstæðunum. Heimilisofbeldi og einelti eru dæmi um slíkar aðstæður.

Heimildir
Americal Psychiatric Association (2000). Diagnostic and statistical manual of mental disorders (4th ed.).
Washington, DC: APA.

Rapee, R. M. & Hudson, J. L (2000). Treating Anxious Children and Adolescent – An Evidence-Baced Approach.
Oakland: New Harbinger Publications.

Rapee, R. M., Spence, S. H., Cobham, V. & Wignall, A. (2000). Helping Your Anxious Child. A step-by-step Guide for Parents.
Oakland: New Harbinger Publications.